Meginmarkmið vefsins eru að:
- Gefa yfirlit yfir rannsókna- og þróunarvinnu í fiskeldi á Íslandi
- Miðla fjölþættum upplýsingum um fiskeldi á Íslandi
- Færa fréttir frá Fiskeldishópi AVS og faghópum
Þáttur fiskeldis í auknu virði sjávarfangs Sjávarútvegsráðherra hefur sett á fót sjóð sem ætlað er að standa á bak við fimm ára átak til að auka virði íslenskra sjávarafurða (AVS-verkefnið). Ákvörðun þessi er tekin í framhaldi af samantekt skýrslu um möguleika þá sem fyrir hendi eru til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða og efla nýsköpun í greininni. Í skýrslunni sem birt var í október 2002 var megintillagan sú stofnaður yrði sérstakur sjóður sem styrkja myndi rannsókna og þróunarstarf á öllum sviðum sjávarútvegsins. Ein af þeim niðurstöðum sem fram kom var að með auknu rannsókna- og þróunarstarfi sé raunhæft að setja það markmið að útflutningsverðmæti sjávarafurða yrði 240 milljarðar árið 2012, samanborið við 130 milljarða árið 2001. Í skýrslunni kemur fram að slík aukning myndi fyrst og fremst borin uppi af fiskeldi, líftækni, vinnslu aukaafurða og með bættri tækni við fiskvinnslu.
Undanfarin misseri hefur mikið verið fjallað um þorskeldi. Þannig fékk sjávarútvegsráðherra Ólaf Halldórsson fiskifræðing til að leggja fram hugmyndir að uppbyggingu þorskeldis á Íslandi sem birtar voru í skýrsluformi í mars 2002. Þá hefur og starfað sérstakur samstarfshópur á vegum sjávarútvegsráðuneytisins, auðlindadeildar Háskólans á Akureyri, Hafrannsóknastofnunarinnar og sjávarútvegsfyrirtækja. Markmið starfsins var að meta samkeppnishæfni þorskeldis á Íslandi, móta stefnu í rannsókna- og þróunarvinnu og afla og miðla upplýsingum um þorskeldi. Í desember 2002 sendi hópurinn frá sér ítarlega skýrslu um stefnumótun í rannsókna- og þróunarvinnu fyrir þorskeldi á Íslandi, þar sem tekið var mið af hugmyndum þeim sem fram komu í AVS-skýrslunni um að settur skuli á fót sérstakur fiskeldishópur.
Fiskeldishópur AVS Sjávarútvegsráðherra skipaði formlega starfshóp í mars 2003 til að vinna að átaki í fiskeldismálum á Íslandi. Hópurinn sem fengið hefur heitið Fiskeldishópur AVS er einn af stýrihópum undir AVS-verkefnisstjórninni.
Hlutverk Fiskeldishóps AVS er:
- Vera tengiliður við sjávarútvegsráðuneytið og AVS-verkefnisstjórnina.
- Hafa forystu um starf faghópa sem kallaðir yrðu til álits á helstu áherslusviðum.
- Afla upplýsinga um samkeppnishæfni fiskeldis á Íslandi.
- Hafa frumkvæði um reglulegt mat á framgangi í rannsókna- og þróunarvinnu.
Eftirtaldir sitja í Fiskeldishópi AVS:
- Kristján G. Jóakimsson, Hraðfrystihúsinu-Gunnvöru hf.
- Ingimar Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.
- Jóhann Sigurjónsson, Hafrannsóknastofnuninni.
- Jón Árnason, Matís hf.
- Jón Kjartan Jónsson, Samherji hf.
- Óttar Már Ingvason, Brim-fiskeldi ehf.
Starfsmaður hópsins er Valdimar Ingi Gunnarsson, sjávarútvegsfræðingur.